Beituhlaup

Í Beituhlaupi elta hundar gervi beitu eftir braut sem ætlað er að líkja eftir eltingaleik á eftir lifandi beitu.

Þetta er sérstök keppnisgrein þar sem tveir hundar af sömu tegund keppa á móti hvor öðrum. Hlaupið er eftir braut og getur lengd og útfærsla brautarinnar verið misjöfn. Brautin er í raun langt snæri með beitu á endanum, venjulega tjaslaður plastpoki eða eitthvað álíka. Snærið liggur svo á brautinni í ákveðnum vinklum. Við enda brautarinnar er beitustjóri sem stýrir hraða beitunnar . Hundarnir keppa svo í að elta þessa „lifandi bráð“. Þeir eru dæmdir eftir mismunandi eiginleikum; hraða, fylgni, þoli, fimi, gleði og heildareinkunn.


Þetta er stór íþrótt í mjóhundaheiminum, ekki síst á Norðurlöndunum og í Bandaríkjunum. Hundarnir geta fengið stig í beituhlaupi líkt og á sýningum en til þess þarf að sjálfsögðu sérþjálfaða dómara til að dæma. Beituhlaup er ekki íþrótt sem þarf að kenna mjóhundum, þeir hafa þetta í eðli sínu. Til þess að  vera færir í beituhlaupi þurfa þeir að sjálfsögðu æfingu.

Þetta er fyrst og fremst íþrótt sem allir hafa gaman af, jafnt hundar sem eigendur.