Um hundana

Ég hef alltaf átt dýr, alveg frá músum upp í hesta. Ég var sjö ára þegar fjölskyldan fékk sinn fyrsta hund. Hann fékk nafnið Kátur og var blanda af íslenskum fjárhundi. Þegar ég var fimmtán ára keypti ég mér minn fyrsta hreinræktaða hund en það var Ástralskur Silky terrier. Hún var kölluð Tína  og var algjör krútt. 

Árið 2003 fór ég í mastersnám til Spánar og fannst mér nú ansi tómlegt að hafa engan hund á heimilinu og ákvað ég því að fá mér Dobermann. Fyrir valinu varð ræktandinn Rhayader í Valencia og tíkin Rhayader Elaine eða Dimma eins og hún var kölluð. Við áttum góðar stundir með Dimmu á Spáni og að loknu námi fluttum við hana með okkur heim. Ég var mjög dugleg að vinna með Dimmu og kláraði hún hlýðnipróf og spor. Með henni steig ég einnig mín fyrstu skref í sýningarhringnum. Hugmyndin af ræktunarnafninu Puppyeyes varð svo til vegna ótal athugasemda frá mismunandi fólki um hversu hvolpaleg augu hún Dimma mín væri með. Dimmu og mitt fyrsta hundagot kom svo í heiminn á Valentínusardeginum 14 febrúar 2007. Dimma þín er sárt saknað. 

Á Spáni meðan á náminu stóð hitti ég í fyrsta skipti hund af tegundinni Saluki en þá voru engir slíkir hundar til á Íslandi. Ég hafði bara séð þessa hunda í bókum þegar ég var yngri. Ég féll algjörlega fyrir þessari undurfögru og dulúðlegu tegund og hóf að kynna mér hana af miklum krafti. Á þessum tíma var Dimma mín einungis hvolpur og ákvað ég því að bíða róleg enn um sinn. Árið 2005 þegar við vorum komin aftur heim til Íslands setti ég mig í samband við nokkra Saluki rækendur. Það gekk erfiðlega hjá mér að finna réttan hund sem uppfyllti allar mínar kröfur og en með hjálp góðra aðila varð það danski ræktandinn Feisals sem loksins eftir rúmlega 3 ára leit let drauminn verða að veruleika. Feisals Gulliem Gaudi eða Gaudí kom til landsins í byrjun janúar 2009 og verð ég Birgitte ævinlega þakklát fyrir að treysta mér fyrir þessum gullmola. En ég hélt áfram að leita að tík til að flytja inn. Ég beið um nokkurt skeið eftir goti undan tík sem ég hafði alveg heillast af, Qirmizi Global Temptress og loks árið 2010 varð sá draumur að veruleika þegar Qirmizi Madison eða Míra fæddist. Ég er einnig mjög þakklát Ingunni og Nicklas sem standa á bak við ræktunina Qirmizi fyrir að hjálpa mér að láta þetta allt saman verð að veruleika.

Hin síðari ár hefur áhugi minn á sýningum og ræktun aukist til muna og hef ég verið virk í Hundaræktarfélaginu. Ég sat í stjórn Pincher, Mastiff- og fjallahundadeildar í nokkur ár og núna sit ég í stjórn Mjóhundadeildar. Ég reyni að láta gott af mér leiða fyrir þær tegundir sem þar tilheyra og vera fyrirmyndar hundaeigandi.